Handbolti

Leikmaðurinn sem Þórir valdi ekki í EM hópinn skoraði 7 mörk á 7 mínútum

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Norðmenn fagna sigrinum í dag.
Norðmenn fagna sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP
Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik var harðlega gagnrýndur í aðdraganda Evrópumeistaramótsins þegar hann valdi ekki Linn Jørum Sulland í landsliðshópinn. Þórir bætti Sulland í leikmannahópinn eftir að keppni lauk í milliriðlinum og Sullandi svaraði fyrir sig í dag í undanúrslitaleiknum gegn Dönum og skoraði 7 mörk á rúmlega 7 mínútum - og var hún markahæst í liði Noregs í 29-19 sigri liðsins í dag.

Á morgun mætir Noregur liði Svía í úrslitum en þetta verður í sjöunda sinn sem Noregur leikur til úrslita á EM en aðeins tveir úrslitaleikir hafa farið fram án þess að Noregur komi þar við sögu.

„Linn kom að nýju inn í liðið og gerði nákvæmlega það sem við vildum að hún gerði," sagði Selfyssingurinn við norsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir leikinn í Herning í Danmörku. Sulland skoraði fimm mörk úr vítaköstum og tvö úr vinstra horninu.

„Það sem skilaði okkur sigri var að við náðum að halda sömu ákefð í leiknum í allar 60 mínúturnar. Útihlaupin sem við lögðum mikla áherslu á s.l. sumar eru að skila sér en ég var ekki efstur á vinsældalistanum hjá leikmönnum liðsins þegar við vorum að hlaupa sem mest. Það er góð einbeiting í hópnum en við höfum ekki náð markmiðum okkar," bætti Þórir við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×