Viðskipti innlent

Frávísunarkröfu gegn Imon vísað frá

Frávísunarkröfu Landsbankans gegn eignarhaldsfélaginu Imon var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Imon ehf. er eignarhaldsfélag í eigu Magnúsar Ármann þar sem hann situr einn í stjórn.

Félagið keypti um fjögurra prósenta hlut í Landsbankanum fyrir um fimm milljarða 30. september árið 2008 og voru kaupin alfarið fjármögnuð með láni frá Landsbankanum. Að veði voru stofnfjárbréf í Byr, en Imon var stærsti hluthafi Byrs.

Alls er um sex skuldamál gamla Landsbankans á hendur eignarhaldsfélaginu Imon ehf. að ræða. Eitt málanna er langstærst, en þar krefur bankinn Imon um fimm milljarða króna vegna láns til Imons fyrir kaupum félagsins í bankanum sjálfum, nokkrum dögum fyrir hrun í fyrrahaust.

Samkvæmt upplýsingafulltrúa skilanefndar Landsbankans, Páli Benediktssyni, þá er niðurstaðan nú lagatæknilegt atriði en bankinn mun stefna strax aftur vegna skuldamálanna.

Ágreiningur er um fjárhæð krafnanna, á hvaða verði Landsbankinn hafi átt að leysa til sín bréfin í Byr og að hve miklu leyti skuli taka tillit til þess við útreikning á kröfufjárhæðinni.

Þess má geta að kaup Imon á hlutabréfum í bankanum örfáum dögum fyrir hrun, eru í rannsókn hjá sérstökum saksóknara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×