Viðskipti innlent

Vill sérstakan bankaskatt

Magnús Orri Schram.
Magnús Orri Schram. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, segir stjórnvöld þurfa að brúa gríðarlega stórt fjárlagagat. Hann vill að settur verði tekjuskattur á fjármálastofnanir eða það sem hann kallar bankaskatt. Undanfarin ár hafi Íslendingar einkavætt hagnað fjármálatofnanna en ríkisvætt tap þeirra. Magnús telur brýnt að þessari þróun verði snúið við.

Í umræðum á Alþingi í dag benti Magnús á að í fyrra hafi hagnaður Arionbanka, Landsbanka og Glitnir verið samtals 51 milljarður króna og að arðsemi eignafjár þeirra hafi verið allt að 30%.

„Þetta er á tímum þar sem stjórnvöld eiga í hatramri baráttu við bankastofnanir um að þær komi til móts við skuldara um frekari aðstoð við skuldug heimili. Þetta er á þeim tímum sem við horfum fram á niðurskurð í þjónustu við aldraðra, og fatlaða, skerðingu á bótum og þjónustu. Og kannski hvað alvarlegast að mati sumra, skerðingu á þjónustu við ráðherra," sagði Magnús.

Til að brúa fjárlagagatið þarf meðal annars að skera niður í útgjöldum ríkissjóð með sameiningu eða niðurlagningu ráðuneyta, að mati Magnúsar. Hann er á móti frekari skatthækkunum á heimili.

„Frá árinu 2003 höfum við Íslendingar einkavætt hagnað fjármálastofnanna en ríkisvætt tap þeirra. Ég legg til að þessari þróun verði snúið við og lýsi mig fylgjandi innleiðingu bankaskatts á þær bankastofnanir sem sýna svo umtalsverðan hagnað. Þær verða að leggja sitt af mörkum við endurreisnina og hjálpa okkur að ná upp í fjárlagagatið því við erum komin að sársaukamörkum í niðurskurði. Sérstaklega ef menn ætla að ríghalda í ráðherrastóla," sagði Magnús.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×