Viðskipti innlent

Ný framkvæmdastjórn skipuð hjá Byr

Síðastliðna daga og vikur hefur verið unnið að því að móta framtíð Byrs og er nýtt skipurit, ný framkvæmdastjórn og stefnumótun fyrir félagið liður í því starfi samkvæmt tilkynningu frá Byr.

Þar segir svo orðrétt: Allt miðar þetta að því að efla Byr og gera hann að vænlegum kosti sem fjármálafyrirtæki fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.

Forstjóri Byrs er Jón Finnbogason sem hefur stýrt Byr frá því í nóvember 2009. Auk hans skipa framkvæmdastjórn félagsins þau Herdís Pála Pálsdóttir, Einar Birkir Einarsson, Regína Fanný Guðmundsdóttir og Björn Björnsson. Öll hafa þau gegnt ábyrgðarstöðum hjá Byr sparisjóði um nokkurt skeið og þekkja því félagið mjög vel.

Áhættustýringu hefur einnig verið gefið aukið vægi en sviðið hefur verið stóreflt frá því sem áður var auk þess sem lánareglur og aðrar reglur hafa verið endurgerðar. Þá hafa skýrari mörk verið sett á milli framlínusviðs og bakvinnslu með það að leiðarljósi að þjónusta viðskiptavini Byrs enn betur.

Starfsfólk Byrs vinnur nú að því að móta framtíðarsýn Byrs á grunni stefnumótunarvinnu sem hófst fyrir nokkru. Markmiðið með stefnumótunarvinnunni er að greina betur starfsemina og hvernig starfsfólkið sér Byr fyrir sér í framtíðinni. Auk þess að móta stefnu mun starfsfólk endurskoða þau gildi sem nú eru til staðar og greina betur þarfir viðskiptavina.

Eru viðskiptavinir Byrs hvattir til að taka þátt í þessari vinnu með starfsfólkinu með því að fara á heimasíðu félagsins, www.byr.is og senda inn ábendingar um það sem betur má fara. Miklar vonir eru bundnar við að þessi vinna skili viðskiptavinum Byrs, starfsmönnum og helstu hagsmunaaðilum fyrirtæki sem allir geta verið stoltir af.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×