Viðskipti innlent

Hluthafar gætu brunnið inni við afskráningu Bakkavarar

Þórður friðjónsson Fyrirhuguð afskráning Bakkavarar af markaði er í skoðun í Kauphöllinni.
Þórður friðjónsson Fyrirhuguð afskráning Bakkavarar af markaði er í skoðun í Kauphöllinni.

Afskráning með þeim hætti sem Bakkavör áformar er ekki hafin yfir vafa, að mati Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar. „Við erum að fara gaumgæfilega yfir málið," segir hann.

Meirihluti kröfuhafa Bakkavarar samþykkti nauðasamninga félagsins fyrir tæpum hálfum mánuði. Í kjölfarið var boðað til hluthafafundar Bakkavarar 26. mars næstkomandi. Þar eignast kröfuhafar félagsins 27 prósenta hlut í Bakkavör en eign Bakkavararbræðra þurrkuð út. Að fundi loknum verður stefnt að því að taka hlutabréf Bakkavarar úr viðskiptum í Kauphöllinni. Bakkavör er eitt þeirra sex hlutafélaga sem mynda Úrvalsvísitöluna.

Þórður segir meirihlutaeigendur skráðra félaga verða að huga betur að markmiðum Kauphallarreglnanna. Gæta verði að hag minni hluthafa, sem kunni að bera skarðan hlut frá borði bjóðist þeim engar leiðir til að losa sig við eign sína í Bakkavör.

„Þetta finnst okkur ekki hafa á sér góðan blæ né til þess fallið að efla trúverðugleika á markaði," segir Þórður og bendir á að nokkrir möguleikar gætu verið í stöðunni. Bjóða megi hluthöfum að selja bréf sín á tilteknu verði eða þeim boðin önnur hlutabréf í skiptum fyrir bréfin í Bakkavör fyrir afskráningu. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×