Viðskipti innlent

Alls skulda 16 sveitarfélög LSS meir en milljarð hvert

Í ársreikningi Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) fyrir síðasta ár kemur fram að alls skulda 16 sveitar-og bæjarfélög sjóðnum meir en milljarð kr. Hafnarfjörður skuldar mest eða tæplega 7,5 milljarða kr. næst kemur Kópavogur með tæpa 6,5 milljarða kr. og í þriðja sæti er Akureyri með tæpa 4,2 milljarða kr.

Lánasjóðurinn sendi 24. janúar síðastliðinn öllum lántakendum hjá sjóðnum samhljóða bréf þar sem óskað var almennrar heimildar fyrir því að birta upplýsingar um stöðu lána þeirra hjá sjóðnum.

Þetta var gert til þess að geta birt í opinberum gögnum s.s. ársskýrslum og fyrir fjárfestum sundurliðaðar upplýsingar um útlán sjóðsins og hvernig þau skiptast á milli sveitarfélaga og félaga í þeirra eigu, þrátt fyrir þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki.

Alls veittu 59 sveitar- og bæjarfélög leyfi sitt fyrir því að birta upplýsingar um lán sín en heildarupphæð þeirra nemur tæplega 58,5 milljörðum kr.

Fámennasta sveitarfélagið sem skuldar meir en milljarð kr. hjá LSS er Sandgerði með íbúa upp á 1.711 manns. Sandgerði skuldar tæpan 1,6 milljarð kr. Fjölmennasta byggðin á listanum er Reykjavík en borgin skuldar rúmlega milljarð kr. Borgarbúar eru 118.427 talsins.

Það sveitarfélag sem skuldar LSS minnst er Borgarfjarðarhreppur en skuld hreppsins nemur tæpum 3,9 milljónum kr.

Þau sveitarfélög sem ekki samþykktu birtingu á stöðu sinni hjá LSS skulda sjóðnum samtals tæplega 155 milljónir kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×