Viðskipti innlent

Fyrirtækin skulda um 112 milljarða í skatta

fjármálaráðherra Steingímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu á mánudag og er það þegar komið til meðferðar þingnefnda. Reiknað er með að það fái skjóta afgreiðslu á Alþingi.
	fréttablaðið/pjetur
fjármálaráðherra Steingímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu á mánudag og er það þegar komið til meðferðar þingnefnda. Reiknað er með að það fái skjóta afgreiðslu á Alþingi. fréttablaðið/pjetur

Alls voru um 112 milljarðar króna í vanskilum af sköttum og opinberum gjöldum hjá atvinnulífinu um síðustu áramót, samkvæmt áætlunum. Tekur það bæði til lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um að hægt verði að fresta greiðslu á þessum skuldum.

Fyrsta kastið er hægt að fá frest til 1. júlí 2011. Ekki verða lagðir dráttarvextir á kröfuna á því tímabili. Hafi fyrirtæki haldið skilyrðin er tollstjóra heimilt að samþykkja útgáfu skuldabréfa til fimm ára. Skuldabréfið er án vaxta.

Um er að ræða virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem gjaldfallið hafa fyrir 1. janúar 2010. Til að fá greiðslufrest verða viðkomandi að vera í skilum með aðra skatta og gjöld og vera í skilum allan frestunartímann.

Af þeim 112 milljörðum sem eru útistandandi eru tæpir 40 í gjaldþrotameðferð. Frumvarpið tekur til hinna 72 milljarðanna. Til samanburðar eru fjárlög ársins 2010 um 555,6 milljarðar króna.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að með þessu eigi að aðstoða fyrirtæki sem eigi í vandræðum. Mörg lífvænleg fyrirtæki berjist í bökkum vegna vanskila og sporna þurfi við því.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að aðeins hluti fjárhæðanna verði innheimtur að óbreyttu; reynslutölur síðustu ára sýni að aðeins 20 til 30 prósent innheimtist. Með þessu úrræði verði vaxtagreiðslur í allt að fimm ár gefnar eftir auk vaxta af útgefnu skuldabréfi í allt að fimm ár.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið jákvætt í hugmyndina. Þeir taka þó fram að huga verði að samkeppnis­sjónarmiðum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir jákvæða hugsun felast í frumvarpinu. Taka verði á þessu vandamáli.

„Okkur sýnist að verið sé að reyna það með þessu máli, að fyrirtæki séu ekki keyrð beint í gjaldþrot. Við viljum reyna að vinna með því."- kóp








Fleiri fréttir

Sjá meira


×