Viðskipti innlent

Vill Bakkavör í nauðasamninga

Helga Arnardóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir hagstæðast að Bakkavör fari í nauðasamninga til að bjarga verðmætum sjóðsins og sjóðsfélaga. Ekki hafi verið tekin afstaða til fyrirhugaðra nauðasamninga Existu. Stjórnarmaður í VR skorar hins vegar á stjórn sjóðsins að hafna nauðasamningum.

Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR var í býtinu á Bylgjunni í morgun. Ragnar sagði að hann og fyrrverandi varaformaður VR hafi ítrekað reynt að fá upplýsingar um viðskipti Existu og annarra félaga við Lífeyrissjóð Verslunarmanna en án árangurs. Bakkavör og Exista hyggjast nú á næstu vikum fara í nauðasamninga. Hann vill að stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafni fyrirhugðum nauðasamningum við Existu sem eiga að liggja fyrir í febrúar.

„Verði farið í nauðasamninga verður ekkert hægt að skoða innan félagsins og það sem var í gangi, bæði með gjaldeyrisskiptasamninga og fleira. Það hlýtur að vekja spurningar þegar ég hef verið að biðja um upplýsingar um lánveitingar til þessara félaga að þær fáist ekki uppgefnar. Lífeyrissjóðurinn hefur margneitað að gefa upplýsingar um hvað sjóðurinn lánaði þessum félögum mikla peninga. Ég veit að Skipti, Bakkavör og Exista eru meðal stærstu skuldara Lífeyrissjóðsins," segir Ragnar.

Ragnar Önundarson stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir að stjórnin geti ekki veitt upplýsingar um lánasamningana samkvæmt lögum og ber við þagnarskyldu. Stjórnin hafi stutt að Bakkavör yrði veitt heimild til að leita nauðasamninga. Hagstæðast væri að leita þeirra, til að bjarga verðmætum lífeyrissjóðsins og annarra sjóðsfélaga. Síðar verði ákveðið hvort lífeyrissjóðurinn greiði svo atkvæði með nauðasamningum. Ekki hafi enn verið tekin afstaða til fyrirhugaðra nauðasamninga Existu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×