Viðskipti innlent

Mikil eftirpurn eftir löngum bréfum jákvætt fyrir ríkissjóð

Mikil eftirspurn eftir löngum ríkisbréfum í útboði s.l. föstudag hlýtur að teljast afar jákvæð fyrir ríkissjóð m.v. þá áherslu að lengja í endurgreiðsluferli skulda hans. Jafnframt telur greining Íslandsbanka að niðurstaðan sé afar góð fyrir skuldabréfamarkaðinn.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í tilkynningu Lánamála ríkisins kemur fram að alls bárust 61 gild tilboð í RIKB25 að fjárhæð rúmlega 17 milljarða kr. að nafnverði. Var tilboðum tekið fyrir 6,7 milljarða kr. á ávöxtunarkröfunni 7,83%.

Innlendir fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóði og verðbréfa- og fjárfestingasjóðir hafa verið stórtækir kaupendur RIKB25 í undanförnum útboðum og má ætla að slíkir fjárfestar hafi einnig verið atkvæðamiklir í útboðinu nú.

Eftir útboðið hefur ríkisbréfaflokkurinn RIKB25 stækkað úr tæpum 64 milljörðum kr. í um 70 milljarða kr. Margir töldu það illmögulegt að byggja upp óverðtryggðan langtímavaxtaferil á íslenskum skuldabréfamarkaði þegar farið var í það verkefni fyrir nokkrum misserum en m.v. áhuga fjárfesta á löngum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum er ljóst að svo er ekki.

„Í raun er uppbygging slíks ferils forsenda þess að hægt sé að bjóða íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum upp á langtíma óverðtryggð lán á föstum vöxtum, til að mynda íbúðalán," segir í Morgunkorninu.

Í flokk RIKB11 bárust 21 tilboð að fjárhæð 7,1 milljarða kr. að nafnverði. Tilboðum var tekið fyrir 3,75 milljarða kr. á 7,34% ávöxtunarkröfu. Flokkurinn er að stærstum hluta í eigu útlendinga. Þannig áttu erlendir aðilar nærri tvo þriðju hluta flokksins í nóvemberlok.

„Teljum við líklegt að innlendir aðilar hafi verið áhugasamari um RIKB11 nú og að erlendir aðilar haldi sig enn fast við þá stefnu að festa fjármuni sína sem allra styst hérlendis. Má því ætla að hlutdeild þeirra í flokknum hafi minnkað eftir útboðið á föstudaginn. Með hækkandi sól gæti hins vegar áhugi útlendinga á flokknum aukist þegar binditími hans fer undir þau eins árs mörk sem margir þeirra horfa til," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×