Viðskipti innlent

Greining Arion banka dregur úr verðbólguspá sinni

Greining Arion banka gerir nú ráð fyrir 1% hækkun verðlags í janúar og hefur því lækkað spá sína en hún gerði upphaflega ráð fyrir 1,2% hækkun verðlags. Samkvæmt endurskoðaðri spá reiknar greiningin með að ársverðbólgan nemi 8% í janúar.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að þrjú atriði hafa mest áhrif til lækkunar frá fyrri spá.

Í fyrsta lagi að fasteignaverð lækkaði um 2,2% í desember samkvæmt Fasteignaskrá. Gætu lækkunaráhrif húsnæðisliðarins því orðið töluvert meiri en mánuðinn á undan en þá mældust áhrifin 0,05% til lækkunar.

Í öðru lagi að útsölur virðast vera ívið betri en oft áður og gætu áhrifin til lækkunar verðlags því orðið meiri til en leit út fyrir í upphafi.

Í þriðja lagi að Vsk-hækkunin virðist í einhverjum tilfellum ætla að skila sér hægt út í verðlag og hjálpar örlítil gengisstyrking krónunnar að undanförnu eflaust eitthvað til í því samhengi.

Í Markaðspunktunum segir síðan að þó megi ekki gera lítið úr þeim kröftum sem gætu haft áhrif til hækkunar verðlags.

„Gera má ráð fyrir um 1,2% hækkun verðlags vegna hækkana á virðisaukaskatti, eldsneyti, áfengi og tóbaki ásamt gjaldskrám sveitarfélaga og orkufyrirtækja. Gert er ráð fyrir að áhrifin dreifist yfir fyrstu mánuði ársins, ekki er þó hægt að útiloka að mestöll áhrifin komi fram í janúar.

Hækkun tryggingagjalds hækkar líklega verðlag um 0,15-0,20% skv. okkar mati.

Mögulega mun einhver uppsöfnuð hækkunarþörf fá að fljóta með í umræddum verðhækkunum, vanmat á þeirri hækkun gæti leitt til meiri verðbólgu," segir í Markaðspuntunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×