Viðskipti innlent

Sjóvá í ríkiseign braut gegn lögum um vátryggingar

Sjóvá hefur verið gert að greiða Fjármálaeftirlitinu (FME) eina milljón kr. í sátt vegna brots félagsins á lögum um vátryggingastarfsemi. Athygli vekur að brotið var framið þegar Sjóvá var í raun komið í eigu ríkissjóðs.

Eins og kunnugt er af fréttum var það tilkynnt þann 24. september í fyrra að FME hefði heimilað yfirfærslu vátryggingastofna Sjóvár Almennra trygginga hf. til SA trygginga hf. að fengnu starfsleyfi þess félags, dags. 21. september 2009. SA tryggingar voru aftur á móti stofnaðar með rúmlega 13 milljarða kr. framlagi frá ríkissjóði.

Á vefsíðu FME um málið segir að í síðasta mánuði gerðu Fjármálaeftirlitið og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) með sér sátt vegna brots félagsins gegn 12. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi.

Samkvæmt nefndu ákvæði skal vátryggingastarfsemi og hliðarstarfsemi ...rekin í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur í vátryggingaviðskiptum og með hag vátryggingataka og vátryggðra fyrir augum. Gróf eða ítrekuð brot gegn ákvæðinu varða stjórnvaldssektum samkvæmt lögunum.

Á tímabilinu frá 22. september til 22. október 2009 gátu vátryggingartakar samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi sagt upp vátryggingasamningi sínum vegna flutnings vátryggingastofna Sjóvár Almennra trygginga hf. til SA trygginga hf. (Síðar breytt í Sjóvá- Almennar tryggingar hf.).

Fjármálaeftirlitinu bárust upplýsingar um að á nefndu tímabili hefði félagið, í a.m.k. einu tilviki, dregið afgreiðslu uppsagnar í tæpar tvær vikur. Fyrir lá að aðilinn sem sagði upp vátryggingasamningi sínum hefði þegar gert vátryggingasamning við annað vátryggingafélag.

Fjármálaeftirlitið taldi drátt á afgreiðslu uppsagnarinnar stríða gegn markmiði... laganna og skýrum rétti vátryggingartaka samkvæmt ákvæðinu. Jafnframt taldi Fjármálaeftirlitið háttsemi félagsins til þess fallna að valda vafa um réttarstöðu vátryggingartaka ef til tjóns hefði komið á tímabilinu. Þar af leiðandi hefði verið brotið gegn góðum viðskiptaháttum og venjum í vátryggingaviðskiptum samkvæmt fyrrgreindum lögum.

"Að teknu tilliti til umfangs og alvarleika málsins og með vísan til... laga um vátryggingastarfsemi og reglna ... um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, var það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð sáttarinnar væri hæfilega ákveðin kr. 1.000.000," segir á vefsíðunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×