Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs að ná áramótastöðunni

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs stendur nú í 353 punktum samkvæmt Markit Itraxx vísitölunni og er þar með að ná svipaðari stöðu og var um áramótin síðustu. Þá stóð álagið í 345 punktum.

Eftir að forseti Íslands vísaði Icesavedeilunni í þjóðaratkvæði eftir áramótum fór álagið hæst í tæpa 700 punkta á næstu dögum þar á eftir. Álagið hefur því lækkað um helming frá þeim tíma.

Lægst fór skuldatryggingaálag ríkissjóðs niður í 338 punkta frá því að bankahrunið skall á og var það í nóvemberbyrjun í fyrra.

Samkvæmt CMA gagnaveitunni stóð skuldatryggingaálagið í 370 punktum s.l. föstudag en von er á nýrri mælingu á því hjá CMA nú í hádeginu.

Í umfjöllun greiningar Íslandsbanka um miðjan mánuðinn kom fram að ekki er úr vegi að ætla að hagstæð þróun á áhættuálaginu á ríkissjóð megi rekja til tilkynningar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands væri loksins komin á dagskrá hjá framkvæmdastjórn AGS enda er ekki hægt að rekja hana til almennrar þróunar.

Nú hefur stjórn AGS staðfest endurskoðunina og þar að auki hefur matsfyrirtækið Moody´s breytt horfum fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs úr neikvæðum og í stöðugar.

Skuldatryggingaálagið í 353 punktum þýðir að greiða þarf rúmlega 3,5% af nafnverði skuldabréfa til fimm ára til að tryggja þau gegn greiðslufalli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×