Viðskipti innlent

Íslandsbanki býður fyrirtækjum höfuðstólslækkun

Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða fyrirtækjum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, að sækja um lækkun á höfuðstól erlendra lána og breyta þeim um leið í lán í íslenskum krónum. Erlendum lánum er breytt í óverðtryggð eða verðtryggð lán í íslenskum krónum miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands þann 29. september 2008.

Í tilkynningu segir að höfuðstólslækkunin býðst eingöngu þeim fyrirtækjum í viðskiptum við bankann sem eru með stóran hluta tekna sinna í íslenskum krónum. Þar að auki þarf lánið að hafa verið tekið fyrir 15. október 2008 en að öðru leyti eru umsóknir metnar í samræmi við lána- og vinnureglur bankans. Byrjað verður að taka á móti umsóknum á morgun 29. apríl. Til að sækja um höfuðstólslækkun þarf að hafa samband við starfsmenn fyrirtækjaþjónustu í útibúum bankans og á fyrirtækjasviði.

Lán með myntskiptinguna 30% í dollurum (USD), 30% í svissneskum frönkum (CHF) og 40% í japönskum jenum (JPY) getur lækkað um allt að 27% miðað við gengi þann 23. apríl 2010. Lækkunin breytist í takt við þróun gengis á hverjum degi sem og eftir myntsamsetningu hvers láns.

„Þessi lausn er aðkallandi fyrir fjölmörg fyrirtæki og því ánægjulegt að við getum boðið hana fyrirtækjum í viðskiptum við okkur sem eru skuldsett í erlendri mynt. Það er að mínu mati mikilvægt fyrir fyrirtæki að eiga þess kost að lækka skuldastöðu sína með þessum hætti og styrkja þar með efnahagsreikning sinn. Einnig minnkar þessi lausn gengisáhættu þeirra fyrirtækja sem hana nýta og gerir greiðslubyrði lána jafnari og fyrirsjáanlegri," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×