Viðskipti innlent

Danskir eigendur Össurar hagnast um 19 milljarða á félaginu

Danska fjárfestingafélagið William Demant Invest, stærsti eigandi Össurar hf., hefur hagnast um 19 milljarða kr. á eign sinni í Össuri frá marsmánuði í fyrra.

Í mars í fyrra neyddust stjórnendur Össurar til þess að selja 5,6% hlut sinn í Össuri til William Demant en ef þeir hefðu getað haldið þessum hlut sínum fram á daginn í dag væru þeir rúmlega 2 milljörðum kr. efnaðri.

Þegar Willian Demant, sem er dótturfélag Oticon Foundation, keypti 5,6% hlut forstjóra Össurar og framkvæmdastjóra félagsins í fyrra fór heildareign þeirra í Össuri upp í rétt tæp 40%. Fyrir hlutinn voru greiddir 2,1 milljarðar kr. en hlutinn var seldur á 88 kr. sem var 9% undir þáverandi markaðsverði. Í dag á William Demant rúmlega 37% í Össurri.

Markaðsvirði Össurar í dag nemur 90,7 milljörðum kr. og hefur meir en tvöfaldast frá mars í fyrra. Stendur hluturinn nú í 200 kr. og hefur félagið aldrei verið verðmætara. Í mars í fyrra var markaðsverðmæti Össurar um tæpir 38 milljarðar kr. og hlutur William Demant því rúmlega 15 milljarða kr. virði. Í dag er hlutinn 34 milljarða kr. virði.

William Demant hóf að kaupa hluti í Össuri árið 2004 og keyptu í fyrstu tæplega 6,3% hlut á genginu 55,5 kr. á hlut. Síðan þá hafa Danirnir smátt og smátt byggt upp eignarhlut sinn, hann var kominn í rúmlega 20% árið 2005 og stóð í rúmum 34% þegar hluturinn af stjórnendum Össurar bættist við eign þeirra fyrir rúmu ári síðan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×