Viðskipti innlent

SPRON segir gengisdóm hafa takmarkað fordæmisgildi

Slitastjórn SPRON mun fara vandlega yfir dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og fylgjast með þeim skrefum sem stjórnvöld og Alþingi hyggjast taka í málinu á næstu dögum.

Í tilkynningu segir að SPRON áréttar að sparisjóðurinn var ekki aðili málsins og gerði ekki samninga sambærilega við þá sem voru til meðferðar í framangreindum Hæstaréttardómum. Niðurstaðan hefur því takmarkað fordæmisgildi hvað varðar lánasamninga SPRON.

„Ennfremur er því ósvarað hvernig fara skuli með lán þar sem gengistrygging telst ólögleg, enda var það álitaefni ekki lagt fyrir Hæstarétt. Vakin er athygli á því að nú þegar eru rekin nokkur dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur varðandi lögmæti lánasamninga sem eru sambærilegir samningum bankans," segir í tilkynningunni.

„Þess er að vænta að niðurstaða Hæstaréttar í þeim málum geti legið fyrir á þessu ári. Í þessum málum hefur það álitaefni verið lagt fyrir dóminn hvernig fara skuli með verðtryggingarþátt samninganna teljist þeir fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Sú varakrafa hefur verið gerð í málunum að þá beri að meðhöndla lánin eins og þau hefðu verið íslensk lán frá upphafi, verðtryggð eða óverðtryggð, og njóti þá sambærilegra kjara og lántakendum slíkra lána buðust.

Bankinn leggur mikla áherslu á að greiða úr vanda fólks sem glímir við erfiða greiðslubyrði og hvetur lántakendur til að kynna sér þau fjölmörgu úrræði sem bankinn býður til þess að gera fólki kleyft að standa í skilum. Viðskiptavinir SPRON geta sótt um úrræðin á heimasíðu bankans www.spron.is eða komið í útibú Arion banka.

Þangað til niðurstaða liggur fyrir af hálfu Hæstaréttar eða löggjafans, mun bankinn nú sem endranær koma til móts við viðskiptavini sína. Hefur bankinn því ákveðið að bjóða lántakendum með erlend lán að framlengja það úrræði að greiða kr. 5.500,- fyrir hverja upphaflegu milljón lánsins og halda þannig lánum sínum í skilum miðað við upphaflega fjárhæð lánsins. Þeim lántakendum sem ekki hafa nýtt sér þetta úrræði hingað til býðst að sækja um það nú.

Loks vill SPRON árétta að viðskiptavinir sem nýta sér einhver þeirra fjölmörgu úrræða sem bankinn býður munu ávallt njóta betri réttar sem niðurstaða Hæstaréttar eða löggjafans kann að leiða til.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×