Viðskipti innlent

Gengisdómur hefur lítil áhrif á lausafjárstöðu bankanna

Sigríður Mogensen skrifar

Aðeins í undantekningatilvikum mun leiðrétting á höfuðstól gengistryggðra lána leiða til útgreiðslu hjá fjármálafyrirtækjum og því hefur nýlegur hæstaréttardómur lítil áhrif á lausafjárstöðu þeirra. Þetta er mat Seðlabanka Íslands. Enn er algjör óvissa um lögmæti húsnæðislána bankanna í erlendri mynt.

Ekki hefur gefist ráðrúm til að meta hvaða áhrif dómurinn hefur að fullu á bankakerfið, enda ríkir enn lagaleg óvissa um hve víðtæk áhrif dómsins verða.

Seðlabankinn kynnti mat sitt á áhrifum dómsins á fjármálafyrirtæki fyrir efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd Alþingis á fundi í morgun.

Það er mat Seðlabankans að aðeins í undantekningartilvikum myndi leiðrétting á höfuðstól lána leiða til útgreiðslu hjá fjármálafyrirtækjum. Því yrðu áhrif á lausafjárstöðu þeirra yfirleitt lítil.

Almenn lækkun á höfuðstól gengistryggðra lána myndu lækka eigið fé fyrirtækjanna, en umtalsverðar höfuðstólslækkanir hafi þegar verið áformaðar. Þá muni líklega draga úr vanskilum og þau áhrif komi á móti. Þá telur Seðlabankinn að fjármálafyrirtækin gætu þurft minna eigið fé en áður vegna þess að dregið hefur úr gjaldeyrisójafnvægi.

Algjör óvissa ríkir um lögmæti gengistryggðra húsnæðislána en unnið er að því að meta stöðu þeirra lána. Landsbankinn og Arion banki hafa þó haldið því fram að lán þeirra séu í samræmi við lög. Hjá Íslandsbanka er verið að meta stöðuna.

Bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafa í dag tilkynnt að ekki verði sendir út greiðsluseðlar vegna gengistryggðra bílalána næstu mánaðarmót. Þá hefur ýmist verið gert tímabundið hlé á innheimtuaðgerðum eða þeim hætt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×