Viðskipti innlent

Samið um rannsóknir og nýtingu jarðhita í Innri Mongólíu

Samkomulag um samstarf á sviði rannsókna og nýtingar jarðhita milli stjórnvalda í Innri Mongólíu í Kína og Enex Kína og samstarfsaðila þeirra, Sinopec Star Petroleum var undirritað í sendiráðsbústað Íslands í Peking nýlega að viðstöddum forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristínu A. Árnadóttur sendiherra í Kína.

Í tilkynningu segir að samkomulagið kveði á um að Enex Kína og Sinopec Star Petroleum aðstoði yfirvöld í A Er Shan héraði í Innri Mongólíu í Kína að hefja rannsóknir og gera úttekt á jarðhitamöguleikum í A Er Shan.

Jafnframt felur samkomulagið í sér samstarf til þess að kortleggja og tilgreina jarðhitasvæði og jarðhitageyma ásamt því að skoða verndunar- og nýtingarmöguleika á jarðhitasvæðum í héraðinu.

Aðilar að samningnum hafa samþykkt að vinna sameiginlega að þróun verkefna til jarðhitanýtingar í A Er Shan með höfuðáherslu á uppbyggingu hitaveitu, gróðurhúsaræktun og framleiðslu á raforku með jarðhita. A Er Shan sveitastjórnin mun jafnframt tilnefna tæknimenntað starfsfólk til þátttöku í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er á Íslandi.

Innri Mongólía er sjálfstjórnarsvæði í norðausturhluta Kína þar sem búa yfir 24 milljónir manna. Svæðið er með landamæri að Mongólíu og Rússlandi. Þar er meginlandsloftslag ríkjandi með köldum vetrum þar sem nýting jarðhita til húshitunar getur hugsanlega leyst af hólmi kola- og gaskyndingu húsa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×