Viðskipti innlent

Landsvirkjun og Íslandsbanki semja um þriggja milljarða lán

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, skrifuðu undir samninginn í dag.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, skrifuðu undir samninginn í dag.
Landsvirkjun og Íslandsbanki skrifuðu í dag undir samning um veltilán að fjárhæð 3 milljarða króna. Lánstími er þrjú ár og ber lánið Reibor millibankavexti auk mjög hagstæðs álags, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun. Lánið er svokallað veltilán og getur Landsvirkjun dregið á það eftir þörfum með litlum fyrirvara.

Veltiláninu er ætlað að auka enn frekar aðgengi Landsvirkjunar að fyrirvaralítilli fjármögnun í íslenskum krónum og bæta þar með lausafjárstöðu fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur nú þegar aðgang að öðru veltiláni í erlendri mynt eða um 280 milljónum Bandaríkjadala.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að lausafé fyrirtækisins sé nú um 110 milljónir Bandaríkjadala, en að viðbættum áður nefndum lánalínum hafi fyrirtækið aðgang að jafnvirði um 410 milljónum Bandaríkjadala, sem svarar til um 52 milljarða króna. Landsvirkjun hefur þannig þegar tryggt fjármagn sem ásamt fé frá rekstri dugar til að standa við allar núverandi skuldbindingar til ársloka 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×