Viðskipti innlent

FME sektar Opin kerfi Group um 3 milljónir

Stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) hefur ákveðið að ákvörðun um að sekta Opin kerfi Group hf. (nú OKG ehf.) um 3 milljónir kr. vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.

Í frétt um málið á vefsíðu FME segir að málsatvik séu þau að þann 14. apríl 2009 birti félagið tilkynningu þess efnis að stjórn félagsins hefði að undanförnu unnið að endurskipulagningu á fjárhag félagsins og að ákveðið hefði verið að hefja viðræður um uppgjör á kröfum á hendur félaginu við lánardrottna þess, þ.m.t. eigendur skuldabréfa með heitinu OPKF 01 1. Stefnt væri að því að niðurstaða yrði ljós á næstu vikum.

Einnig kom fram í tilkynningu félagsins að það myndi leita samkomulags við handhafa skuldabréfanna um frestun afborgana og vaxtagreiðslna sem kæmu til gjalddaga þann 20. apríl 2009. Engar tilkynningar bárust hins vegar frá félaginu fyrr en rúmlega hálfu ári síðar, þ.e. þann 20. október 2009 sem var lokagjalddagi skuldabréfaflokksins, en þá var tilkynnt að félagið myndi ekki greiða umsamda afborgun eða vexti á gjalddaga þar sem viðræður stæðu enn yfir við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu með það að markmiði að tryggja fullar efndir.

Tekið var fram í tilkynningunni að afborgun og vaxtagreiðslur sem féllu í gjalddaga þann 20. apríl 2009 væru einnig ógreiddar. Loks kom fram að félagið myndi senda frá sér upplýsingar um framgang viðræðnanna í byrjun nóvembermánaðar.

Það var mat Fjármálaeftirlitsins að Opin kerfi Group hf. hafi brotið gegn lögum með því að hafa annars vegar ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni um að ekki yrði greitt af skuldabréfunum OPKF 01 1 þann 20. apríl 2009 áður en gjalddaginn rann upp, og hins vegar að hafa ekki birt upplýsingar um niðurstöðu eða gang samningsumleitana við handhafa nefnds skuldabréfaflokks sem tilkynnt var um þann 14. apríl 2009.

Fjármálaeftirlitið mat það svo að brot félagsins félli undir ....laga og bæri að ljúka með stjórnvaldssekt. Við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar var litið til eðlis brotsins, að um hafi verið að ræða viðvarandi upplýsingaskyldubrot á tímabilinu 14. apríl til 20. október 2009, að félagið hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína hvað varðar niðurstöðu um gang viðræðna við kröfuhafa félagsins og málsatvika að öðru leyti. Með hliðsjón af framangreindu þótti hæfilegt að gera félaginu stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 3.000.000,-.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×