Viðskipti innlent

Tuttugu milljarðar í rekstur slitastjórna og skilanefnda

Rekstrarkostnaður slitastjórnar og skilanefndar gamla Landsbankans nam 11,5 milljörðum króna á síðasta ári.
Rekstrarkostnaður slitastjórnar og skilanefndar gamla Landsbankans nam 11,5 milljörðum króna á síðasta ári.
Heildarkostnaður við rekstur slitastjórna og skilanefndir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans nam 19,8 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Kostnaðurinn er mestur hjá slitastjórn og skilanefnd Landsbankans, en heildarkostnaður þeirra nam 15,3 milljörðum króna á síðasta ári. Lægstur var kostnaðurinn við uppgjör á þrotabúi Kaupþings. Uppgjör Glitnis nær aðeins til loka nóvember í fyrra. Kostnaðurinn var undir áætlun að öllu leyti ef frá er talinn sérfræðikostnaðurinn, sem reyndist um 38 prósentum yfir áætlun.

Sérfræðikostnaður vegur jafnframt þyngst í uppgjöri á rekstrarkostnaði slitastjórna og skilanefnda hinna bankanna, eða rétt tæplega helmingur af öllum útgjöldum þeirra. Einungis er gerður greinarmunur á innlendum og erlendum sérfræðikostnaði í uppgjöri Kaupþings, sem kynnt var kröfuhöfum bankans á fundi á Nordica Hotel í gær.

Hjá Kaupþingi nam innlendi sérfræðikostnaðurinn í heildina rúmum 3,2 milljörðum króna, þar af hljóp sá erlendi á rúmum 2,3 milljörðum króna. Sérfræðikostnaður Landsbankans nam á móti tæpum 4,4 milljörðum króna.

Annar kostnaður skilanefnda og slitastjórna föllnu bankanna fellur undir endurskoðun á reikningum, kostnað við rekstur tölvukerfa auk þóknana til nýju bankanna fyrir afnot af rými, tækjum og starfsfólki.

Á kröfuhafafundi Kaupþings í gær kom fram að rekstrarkostnaður slitastjórnar og skilanefndar bankans var 0,24 prósent af heildareignum þrotabúsins, sem þar voru í stýringu í fyrra og rétt rúmlega hálft prósent af nettóeignum búsins um mitt síðasta ár.

Rekstrarkostnaður slitastjórna og skilanefnda bankanna dregst frá kröfum í bú gömlu bankanna. Á meðal umsvifamikilla kröfuhafa þeirra eru Seðlabanki Íslands, lífeyrissjóðirnir og nýju bankarnir ásamt fleiri aðilum, innlendum og erlendum.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×