Viðskipti innlent

Kolbrún Pálína Helgadóttir orðin ritstjóri á Nýju Lífi

Nýr ritstjóri hefur tekið við tímaritinu Nýju Lífi, Kolbrún Pálína Helgadóttir. Kolbrún hefur verið blaðamaður á DV síðan í júlí 2007 og lausapenni á hinum ýmsu tímaritum frá árinu 2003.

Í tilkynningu segir að Kolbrún muni halda áfram því góða starfi sem lagt hefur verið í blaðið í þau 30 ár sem það hefur komið út.

„Við á ritstjórn Nýs Lífs ætlum að breyta um stefnu og fara yfir í léttari stemningu, gera blaðið ferskara, litríkara og myndrænna. Við ætlum að breyta gömlum fötum, kíkja á það nýjasta í búðunum hverju sinni, fylgjast með förðunartískunni og gefa góð ráð. Við munum halda áfram að tala við áhugavert fólk sem hefur látið drauma sína rætast sem og ungt og efnilegt fólk sem er að gera flotta hluti. Umfram allt ætlum við að fylgjast með nýjustu tísku og vera á jákvæðu nótunum," segir Kolbrún Pálína Helgadóttir.

Nýjasta tölublað Nýs Lífs kemur út í dag, fimmtudag. Viðtal er við fimm af fjölmörgum glæsilegum þulum Sjónvarpsins og rifja þær upp þetta sérstaka starf, mistökin í beinni útsendingu og segja skoðun sína á því að starfið heyri nú sögunni til. Þá er allt um skemmtilegu og litríku sumartískuna og nýjustu ilmina.

Söngkonan Lára Rúnarsdóttir segir frá ævintýrinu við það að upplifa drauminn og kynjafræðingur svarar spurningum lesenda. Fastir þættir eins og Tískudrósin, Njóttu, Á döfinni, Breyttu fötunum, Í uppáhaldi og 10 atriði eru að sjálfsögðu á sínum stað sem og Stjörnuspá og Skóli lífsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×