Viðskipti innlent

Áfengisala minnkaði um rúm 13% í febrúar

Sala áfengis minnkaði um 13,1% í febrúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í febrúar 12,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 18,2% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að neysla áfengis virðist fara hratt minnkandi ef marka má þann mikla samdrátt sem orðið hefur í sölu þess að undanförnu. Ljóst er að verðhækkanir hafa haft þessi áhrif.

Á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hefur orðið 14% samdráttur í seldu magni áfengis og verðið í febrúar var 18,2% hærra en í febrúar 2009. Þess má geta að á meðan verð á áfengi og tóbaki hér á landi hækkaði um 20,3 á tímabilinu janúar 2009 til janúar 2010, þá nam meðalhækkun áfengis og tóbaks á hinum Norðurlöndunum 4,6%.

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 1,1% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,4% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði velta dagvöruverslana í febrúar um 0,8% frá febrúar í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 6,5%á þessu 12 mánaða tímabili.

Fataverslun var 5,2% minni í febrúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en jókst um 6,5% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði velta fataverslunar um 5,2%. Verð á fötum var 12,4% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði ári fyrr.

Velta skóverslunar dróst saman um 9,2% í febrúar á föstu verðlagi og jókst um 8,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta skóverslunar saman um 9,2%. Verð á skóm hækkaði í febrúar um 19,9% frá febrúar í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 27,2% minni í febrúar en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 16,9% minni á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 14,1% hærra í febrúar síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.

Sala á raftækjum í febrúar jókst um 2% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 16,1% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á raftækjum hækkaði um 13,8% frá febrúar 2009.

Í febrúar síðastliðnum var raunsamdráttur í verslun hér á landi í samanburði við sama mánuð í fyrra. Það var aðeins í raftækjaverslun sem salan jókst um 2% frá fyrra ári, en var samt 52% minni en fyrir tveimur árum. Húsgagnaverslun hefur minnkað um 62% á síðustu tveimur árum, fataverslun um 27,7%, dagvöruverslun um 14,7% og áfengisverslun um 27,3%. Í öllum tilvikum er um raunveltu að ræða.

Undanfarna mánuði hefur heldur dregið úr þeim samdrætti sem varð í dagvöruverslun strax eftir hrun bankanna í lok 2008. Þá hefur innflutningur á matar- og drykkjarvörum aukist lítillega samkvæmt upplýsingum um vöruinnflutning hjá Hagstofu Íslands, mælt á föstu gengi. Þannig var innflutningur á matar- og drykkjarvöru 0,8% meiri í janúar síðastliðnum en í janúar 2009.

Dregið hefur úr verðhækkunum á matvörum og eru þær mun minni en í öðrum vöruflokkum. Í janúar hafði verð á matar- og drykkjarvöru aukist um 5,8% frá sama mánuði árið áður. Til samanburðar má geta þess að verð á þessum sömu vörum lækkaði um 1,2% að jafnaði á hinum Norðurlöndunum og um 0,6% að meðaltali innan ESB. Þessar upplýsingar má finna í samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birtir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×