Handbolti

Guðmundur: Verðum að nýta tímann vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Mynd/Daníel
Guðmundur Guðmundsson valdi í gær nítján leikmenn í æfingahóp íslenska landsliðsins fyrir HM í handbolta sem hefst í Svíþjóð þann 13. janúar næstkomandi.

„Ég held að ég sé bara mjög ánægður með þennan hóp," sagði Guðmundur en það er í raun fátt sem kemur á óvart í vali hans. Logi Geirsson er ekki með vegna meiðsla og þá er félagi hans hjá FH, Ólafur Guðmundsson, ekki valinn að þessu sinni. Báðir voru þeir í liðinu sem vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki í janúar síðastliðnum.

Guðmundur segir að Sigurbergur Sveinsson fái nú tækifæri með liðinu enda hafi hann verið að standa sig vel með Rheinland í þýsku úrvalsdeildinni.

„Hann var líka mjög góður á móti Svíum um daginn og hefur verið hægt og sígandi að vinna sér sæti í liðinu. Hann var líka með okkur þegar við tryggðum okkur sæti á EM í Austurríki og var okkur drjúgur þá þegar margir lykilmenn voru frá vegna meiðsla," sagði Guðmundur.

„Arnór Atlason leikur í sömu stöðu og hann hefur verið lykilmaður í okkar liði lengi. Þá getur Aron Pálmarsson einnig leyst þessa stöðu og munu þeir þrír skipta henni á milli sín."

„Ólafur Guðmundsson er leikmaður sem lofar mjög góðu en ég tel að tími hans sé ekki kominn."

Guðjón Valur Sigurðsson er aftur í landsliðinu eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Guðmundur fagnar því en hefur vel getað fylgst með Guðjóni þar sem hann er þjálfari Rhein-Neckar Löwen, þar sem Guðjón Valur er fyrirliði.

„Hann hefur spilað fimm leiki með Löwen síðan hann fór aftur af stað og í fjórum þeirra hefur hann spilað í um 30 mínútur. Það hefur gengið mjög vel hjá honum. Auðvitað hefði það verið æskilegra að fá hann fyrr af stað en því var einfaldlega ekki að heilsa," sagði Guðmundur.

Að öðru leyti er ekki mikið um meiðslavandræði á íslenska landsliðshópnum og vonar Guðmundur innilega að svo verði áfram.

„Sjö, níu, þrettán. Það er ein umferð eftir í Þýskalandi og vonandi sleppa okkar menn við meiðsli í henni. Það má þó ekki gleyma því að Logi er meiddur og þer þess vegna ekki imeð. Það er auðvitað slæmt en hann hefur verið að glíma við sín meiðsli í langan tíma."

Guðmundur tekur þó skýrt fram að þó svo að aðeins sextán leikmenn fari á HM í Svíþjóð verður hægt að skipta út tveimur leikmönnum eftir riðlakeppnina. Fyrr í mánuðinum voru tilkynntir 28 leikmenn en aðeins verður hægt að kalla í leikmenn sem eru á þeim lista.

„Sá möguleiki verður fyrir hendi og vonandi þurfum við ekki að nýta okkur hann. En við munum gera það ef við neyðumst til þess."

Hann segir erfitt að meta stöðu liðsins nú og hann mun ekki gera það fyrr að loknum æfingaleikjunum gegn Þýskalandi í Laugardalshöllinni dagana 7. og 8. janúar næstkomandi.

„Eftir Noregsleikinn [á heimsbikarmótinu í Svíþjóð fyrr í mánuðinum] fannst mér við aftur finna taktinn bæði í vörn og sókn. En við þurfum að vinna gríðarlega markvisst og hnitmiðað til að koma öllu heim og saman. Ég treysti mér því ekki til að segja neitt fyrr en eftir leikina gegn Þýskalandi."

„Við þurfum að nýta þessa fáu daga sem við höfum saman mjög vel, bæði fyrir og eftir leikina gegn Þýskalandi," sagði Guðmundur.

Liðið kemur saman til æfinga þann 3. janúar næstkomandi og fá leikmenn liðsins, sem flestir eru að spila með sínum félagsliðinu í vikunni, kærkomna hvíld um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×