Viðskipti innlent

Óskað eftir handtökuskipun á Sigurð Einarsson

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Óskað hefur verið eftir því að gefin verði út handtökuskipun á Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings. Hann hefur ekki enn sinnt kalli sérstaks saksóknara um að mæta í yfirheyrslu. Tveir háttsettir fyrrverandi yfirmenn Kaupþings hafa verið í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara í allan dag. Þeir voru handteknir við komuna til landsins í nótt. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim.

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður hafði verið boðaður til yfirheyrslu í lok þessarar viku en var beðinn um að flýta heimkomu sinni eftir að þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson voru handteknir á fimmtudag. Hann hefur ekki svarað því kalli. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur sérstakur saksóknari óskað eftir því að gefin verði út handtökuskipun á Sigurð sem búsettur er í Bretlandi. Íslendingar eru ekki aðilar að evrópsku handtökuskipuninni sem gerir ferlið flóknara en ella. Starfsmenn sérstaks saksóknara munu vera í daglegum samskiptum við lögregluyfirvöld í Bretlandi vegna málsins.

Þeir Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Steingrímur Kárason, framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans, sem hafa verið í yfirheyrslum í allan dag voru meðal æðstu stjórnenda Kaupþings og unnu náið með Hreiðari Má og Sigurði Einarssyni. Þeir voru báðir með yfir 600 milljónir króna í laun á tímabilinu 2004 til 2008.

Þeir Ingólfur og Steingrímur eru báðir með skráð lögheimili í Lúxemborg og voru handteknir við komuna til landsins í nótt. Þeir voru yfirheyrðir snemma í morgun og í framhaldinu færðir í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Hingað til hefur það tíðkast að menn sem komið er með í yfirheyrslur fari inn um annan af tveimur aðalinngöngum húsnæðis séstaks saksóknara. Í dag var hins vegar annar háttur hafður á þegar þeim Ingólfi og Steingrími var ekið bak við húsið. Þeir voru færðir aftur til yfirheyrslu um klukkan hálftvö í dag og standa yfirheyrslur enn yfir. Björn Þorvaldsson, saksóknari, vildi ekki veita neinar upplýsingar um málið. Ekki fæst uppgefið hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim félögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×