Viðskipti innlent

Bernskan gerir stóran samning við Vísi um pokabeitu

Bernskan ehf. sem rekur pokabeituverksmiðju í Súðavík hefur gert stóran samning við útgerðarfélagið Vísir í Grindavík. Bernskan mun smíða 5 beitingarvélar fyrir Vísir og ætlar að útvega útgerðinni 20 milljón pokabeitur á ársgrundvelli. Verðmæti samningsins er töluvert yfir 100 milljónum kr.

Sveinbjörn Jónsson framkvæmdastjóri Bernskunnar segir að þeir séu mjög ánægðir með þennan samning við Vísir og að vera komnir aftur í samstarf við útgerðina. Vísir kom að þróun pokabeitunnar árin 2005 og 2006.

Samningurinn gerir ráð fyrir að Vísir komi að fjármögnun á smíði beitingarvélanna og hafi á móti forkauprétt á þeim. Raunar verða sex beitingarvélar smíðaðar fyrir Grindavík því aðili tengdur Vísir vill einnig fá eina slíka.

Fram kemur í máli Sveinbjörns að með þessum samning sé vinnslugeta Bernskunnar fullnýtt og ef svo heldur sem horfir þyrfi félagið að fara að stækka við sig og bæta við verksmiðju sína.

Ein beitingarvél og pokabeita frá Bernskunni hefur verið í notkun hjá norskri útgerð undanfarnar vikur og vakið mikla athygli meðal útgerðar- og sjómanna þar í landi. Margir fjölmiðlar sem fjalla um norsk sjávarútvegsmál hafa greint frá þessari vél og beitunni. Þykir sannað að hún bæti aflabrögðin á línuveiðum töluvert miðað við hefðbundnar aðferðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×