Viðskipti innlent

Greining MP Banka spáir 4% verðbólgu í árslok

Greining MP Banka gerir ráð fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna og verði komin í um 4% í lok þessa árs. Hjöðnun verðbólgunnar haldi áfram fram á mitt næsta ár og verði hún þá um 3,5%.

Greining MP Banka kynnti spá um þróun verðbólgu og stýrivaxta á næstu mánuðum á morgunfundi í dag. Fjallað er um efni fundarins í Markaðspunktum greiningarinnar.

Greiningin segir að viðbúið sé að þolinmæði launþega gagnvart stöðugleikasáttmálum sé þrotin og líkur á töluverðum launahækkunum í kjölfar kjarasamninga seinna á árinu hafa því aukist.

Þegar líður á næsta ár kann hækkandi innflutningsverðlag vegna vaxandi verðbólgu í viðskiptalöndunum að þrýsta upp verðlaginu. Aftur á móti gæti verðbólgan gengið hraðar niður ef biðin eftir efnahagsbatanum dregst enn frekar á langinn eða ef gengi krónunnar tekur að styrkjast.

Líklegt er að frekari dráttur á lausn Icesave-deilunnar muni áfram tefja fyrir framgangi efnahagsáætlunarinnar og afnámi gjaldeyrishafta.

„Við reiknum með að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda sig við óbreytta stefnu og haldi áfram að lækka stýrivexti um allt að hálfa prósentu á hverjum þeirra fimm vaxtaákvörðunardaga sem eftir eru fram að áramótum. Gangi það eftir gætu stýrivextir staðið í 6% í árslok og innlánsvextir Seðlabankans í 4,5% ef að vaxtagangurinn verður ekki þrengdur frekar," segir í Markaðspunktunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×