Viðskipti innlent

Leigusamningum fjölgaði í borginni en fækkaði út á landi

Þinglýstum leigusamningum í desember fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu í desember s.l. miðað við sama mánuð árið 2008 en fækkaði á landsbyggðinni. Undantekningin er Suðurland þar sem leigusamningunum fjölgaði um 86,4% milli áranna. Einnig varð fjölgun á Vestfjörðum.

Fasteignaskrá Íslands hefur tekið saman upplýsingar um fjölda þinglýstra leigusamninga um íbúðarhúsnæði eftir landshlutum í desember 2009. Eru uppýsingarnar birtar á vefsíðu skrárinnar.

Þar segir að heildarfjöldi samninga á landinu var 591 í desember 2009 og fjölgar þeim um 4,2% frá desember 2008 en fækkar um 22,6% frá nóvember 2009.

Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði leigusamningunum um 9,8% frá desember 2008 til desember s.l. Á Suðurnesjum fækkaði þeim um 22,4%, á Vesturlandi um 46,7% og á Austurlandi um 18,8%.

Eins og fyrr segir fjölgaði leigusamningunum á Suðurlandi um 86,4% en þess ber að geta að ekki eru háar tölur á bakvið þá prósentu. Leigusamningarnir á Suðurlandi voru 22 talsins í desember 2008 en 41 talsins í desember s.l.

Sömu sögu er að segja frá Vestfjörðum þar sem samningunum fjölgað um 20%, Þeir voru 5 talsins í desember 2008 en 6 í desember s.l. Til samanburðar má nefna að leigusamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 376 talsins í desember 2008 en 413 talsins í desember s.l.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×