Viðskipti innlent

Þrír bankar eiga sjö hundruð fasteignir

Vilhelm

Íbúðalánasjóður (ÍLS) og viðskiptabankarnir þrír eiga rúmlega 1.518 fasteignir víða um land. Þar af eru 1.208 einbýlishús, raðhús og annað íbúðarhúsnæði, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Gangi verstu spár eftir munu ÍLS og bankarnir þrír hafa leyst til sín í kringum 1.550 íbúðir um næstu áramót.

Bankarnir seldu 33 íbúðir í síðasta mánuði og ÍLS sex. Það sem af er september hefur sjóðurinn selt fjórtán íbúðir. Til samanburðar seldust 298 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og á Árborgarsvæðinu í síðasta mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands (áður Fasteignaskrá Íslands). Bæði yfirtaka á íbúðarhúsnæði og sala í gegnum fasteignasölur er þinglýst og skráð sem kaupsamningur.

ÍLS hefur eignast 539 íbúðir frá áramótum og á sjóðurinn 822 íbúðir. Tæpur helmingur þeirra er á Suðurnesjum og Austurlandi. Tólf prósent íbúðanna sem sjóðurinn hefur tekið yfir eru á höfuðborgarsvæðinu. Öðru máli gegnir um bankana. Þeir eiga 696 fasteignir, þar af flokkast 386 fasteignir til íbúðarhúsnæðis.

Meirihluti yfirtekins íbúðarhúsnæðis Arion banka og Landsbankans eru á höfuðborgarsvæðinu, eða á bilinu sjötíu til 75 prósent. Rétt rúm fjörutíu prósent íbúðarhúsnæðis Íslandsbanka eru á höfuðborgarsvæðinu.

Íslandsbanki gerir ráð fyrir að eiga fasteignir í eitt til tvö ár. Landsbankinn væntir þess að eiga þær lengur, eða í þrjú til fimm ár.

Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum og Íbúðalánasjóði er þeim sem missa húsaskjól sitt í hendur lánardrottna gefinn kostur á að leigja íbúðarhúsnæðið í allt að eitt ár í senn. Í sumum tilvikum er samningurinn styttri, allt frá þremur til sex mánaða og miðast við að börn geti lokið skóla. Af 822 íbúðum ÍLS eru 227 í leigu og 202 í rýmingu. Tæpur helmingur íbúðanna stendur auður.

jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×