Viðskipti innlent

Slitastjórn SPRON þráast við að afhenda gögn um stofnfjárbréf

Sigríður Mogensen skrifar
Níu mánuðum eftir að lögmaður óskaði eftir ítarlegum gögnum frá slitastjórn SPRON um viðskipti með stofnfjárbréf frá sumrinu 2007 hefur slitastjórnin ekki enn afhent gögnin.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur til rannsóknar nokkur mál tengd sölu stjórnarmanna og tengdra aðila á stofnfjárbréfum í SPRON sumarið 2007. Grunur leikur á innherjaviðskiptum. Bréfin eru verðlaus í dag og sitja kaupendur bréfanna því eftir með sárt ennið.

Grímur Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður rekur mál fyrir nokkra af kaupendum bréfanna. Fyrir níu mánuðum óskaði hann eftir ítarlegum gögnum frá slitastjórn SPRON um einstök viðskipti frá sumrinu 2007 þar sem umbjóðendur hans keyptu bréf af fruminnherjum sparisjóðsins.

"Það sem okkur vantar sárlega eru gögn um einstök viðskipti," segir Grímur. „Við þurfum að vita hvernig viðskiptin áttu sér stað, hvaða samskipti áttu sér stað og hvernig tilboð seljendanna berast inn á stofnfjármarkaðinn. Við þurfum að fá upptökur af símtölum, afrit af tölvupóstum og allt annað sem getur upplýst um þetta mál"

Slitastjórn SPRON hefur hins vegar ekki enn afhent gögnin. Þær upplýsingar hafi fengist frá slitastjórn SPRON að gögnin séu föst inni hjá tölvufyrirtæki út í bæ og þurfi slitastjórnin að greiða fyrir aðgang að þeim.

Grímur segir að væntanlega muni slitastjórnin leysa út þessi gögn enda þurfi hún þau til að geta gert upp þrotabúið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×