Viðskipti innlent

Century Aluminium tapaði 26,5 milljörðum í fyrra

Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, tapaði 206 milljónum dollara eða 26,5 milljörðum kr. eftir skatt á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu um ársuppgjörið frá félaginu.

Tapið á fjórða ársfjórðung síðasta árs nam 24,4 milljónum dollara eftir skatta sem er mun betri árangur en á fjórða ársfjórðungi ársins 2008 þegar tapið nam 693 milljónum dollara. Lausafjárstaðan var hinsvegar góð um síðustu áramót eða 198 milljónir dollara.

Megnið af tapi Century Aluminium er vegna starfsemi félagsins í Bandaríkjunum að því er segir í uppgjörinu.

Framleiðslan í álverinu á Grundartanga nam 276.000 tonnum af áli á síðasta ári. Er það 2% aukning miðað við árið 2008. Þá segir að reiknað sé með því að framkvæmdir við álver í Helguvík fari að nýju í fullan gang á þessu ári.

Logan W. Kruger forstjóri Century Aluminium segir að rekstur félagsins hafi farið batnandi á seinnihluta síðasta árs í samræmi við almennan bata í efnahag heimsins. Eftirspurn sé stöðug og vaxandi einkum í Kína þrátt fyrir fregnir þar í landi um áform stjórnvalda til að kæla niður hagkerfi landsins.

Þá segir Kruger einnig í tilkynningunni að félagið vinni mikið að því að þróa álverið í Helguvík og hann er sannfærður um að það álver muni skila hluthöfum Century Aluminium miklu á komandi áratugum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×