Viðskipti innlent

Nokkrir mikilvægir hagvísar birtir í vikunni

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að nokkrir mikilvægir hagvísar verði birtir nú í vikunni. Á morgun mun Capacent Gallup birta væntingavísitölu sína fyrir marsmánuð, Hagstofan mun birta tölur um nýskráningar og gjaldþrot fyrirtækja og á miðvikudaginn mun Hagstofan birta vöruskipti við útlönd í febrúar.

Væntingavísitalan hækkaði í febrúar um 9 stig frá fyrri mánuði og mældist 46,2 stig sem er næsthæsta gildi vísitölunnar frá því í október árið 2008. „Auk þess var þetta fjórði mánuðurinn í röð sem vísitalan hækkar miðað við sama tíma fyrir ári en í febrúar í fyrra mældist vísitalan 24,3 stig. Er því ljóst að íslenskir neytendur töldu ástandið í febrúar ekki jafn slæmt og á sama tíma fyrir ári og ekki eins svart og það hefur að jafnaði verið frá hruni bankanna," segir í Morgunkorni.

Í janúar síðastliðnum voru alls 92 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta sem er ríflega fjórðungi fleiri en á sama tíma árið á undan. „Er þetta í takt við þá þróun sem verið hefur síðustu misseri. Jafnframt var mun minna um nýskráningar einkahlutafélaga á þessum fyrsta mánuði ársins en á sama tíma fyrir ári. Þannig voru skráð 157 ný einkahlutafélög nú í janúar en á sama tíma í fyrra voru þau 223. Þetta jafngildir 30% fækkun milli ára," segir ennfremur.

Þá verður einnig áhugavert að sjá vöruskiptin við útlönd í febrúar sem samkvæmt bráðabirgðatölum voru hagstæð um tæplega 13,9 ma.kr. „Er þetta nokkuð meiri afgangur en var á vöruskiptum í febrúar árið á undan, eða sem nemur um 5,9% á föstu gengi miðað við vísitölu meðalgengis. Þessi myndarlegi afgangur í mánuðinum skrifast fyrst og fremst á samdrátt í innflutningi sem dróst saman um 9,6% frá sama tíma fyrir ári að teknu tilliti til gengisbreytinga. Útflutningur dróst nokkuð saman frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 5,3% á föstu gengi. Þennan samdrátt í útflutningi má þó einkum rekja til þess að í febrúar 2009 nam verðmæti útfluttra skipa og flugvéla 7,4 mö.kr. Að þeim lið frátöldum jókst útflutningur um 17,2% á föstu gengi á þessu tímabili."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×