Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn eftir nýbyggingum í hjarta Reykjavíkur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lengi var hornið á Lækjargötu og Austurstræti eins og opið sár í hjarta miðborgarinnar.
Lengi var hornið á Lækjargötu og Austurstræti eins og opið sár í hjarta miðborgarinnar.
Nýbyggingar á brunareitnum á horni Lækjargötu og Austurstrætis voru auglýstar til sölu eða leigu í Fréttablaðinu í morgun og í Morgunblaðinu á laugardaginn. Sverrir Kristinsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun, segist strax hafa fengið ansi margar fyrirspurnir. Hann segir að leigan verði dýr.

„Ég fékk strax um helgina fyrirspurnir og mjög jákvæð viðbrögð," segir Sverrir. Hann segir að menn hafi hug á því að koma þarna að bæði með veitingarekstur og ýmiskonar annan rekstur. Sverrir segist ekki vera með nákvæma tölu yfir það hversu margir hafi spurst fyrir um húsnæðið frá því að auglýsingin birtist fyrst. Þær séu þó ansi margar. „Það eru ýmsir áhugasamir," segir Sverrir.

Sverrir býst við að leigan á húsnæðinu verði dýr. „Já, þetta er nú kannski eitt allra besta hornið í allri Reykjavík," segir Sverrir. Lækjartorgið og gatnamót Austurstrætis og Lækjargötu séu gríðarlega áberandi . „Þetta er verðmæt lóð og verðmætt hús þannig að leiga yrði ekki ódýr þarna. En umferð er mikil," segir Sverrir.

Húsin á þessum reit brunnu vorið 2007. Síðan þá hefur verið unnið að uppbyggingu á reitnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×