Fullt hefur verið út úr dyrum í öllum verslunum Stillingar í morgun, en Stilling veitir í dag helmingsafslátt af öllum vörum í tilefni 50 ára afmælis fyrirtækisins.
Í tilkynningu segir að bíleigendur létu ekki segja sér það tvisvar og hafa flykkst að til að nýta sér tilboðið. Í öllum verslunum fyrirtækisins hafa myndast raðir langt út fyrir dyr og sumar hillur eru við það að tæmast. Ekki er mannafli til að fylla á hillur verslananna á meðan þetta margmenni varir og því gildir reglan „fyrstur kemur, fyrstur fær".
Stilling sérhæfir sig í varahlutum og öðrum auka- og íhlutum fyrir bíla. Fyrirtækið rekur sex verslanir um land allt, eða á Bílshöfða, í Skeifunni, Kópavogi, Hafnarfirði, á Selfossi og á Akureyri.
Ítrekað skal að tilboðið gildir aðeins í dag, á afmælisdaginn sjálfan.
Stilling var stofnuð árið 1960 og sumir starfsmenn þess hafa starfað hjá fyrirtækinu í marga áratugi. Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi.