Handbolti

Filip Jicha fyrsti handboltamaðurinn inn á topp tíu í Tékklandi í 60 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Jicha með þýska meistaraskjöldinn.
Filip Jicha með þýska meistaraskjöldinn. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason hefur heldur betur náð því besta út úr Tékkanum Filip Jicha síðan að hann tók við liði Kiel. Jicha átti frábært ár með Kiel í þýska handboltanum og var valinn besti leikmaðurinn á EM í Austurríki í ársbyrjun. Hann varð fyrir vikið í 6. sæti í kosningunni á Íþróttamanni ársins í Tékklandi sem var sögulegur árangur fyrir handboltamann.

Þetta var í fyrsta sinn í 60 ár þar sem handboltamaður er meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins í Tékklandi en það var skautahlauparinn Martina Sablikova sem var kosin íþróttamaður ársins og það í þriðja sinn á ferlinum.

Filip Jicha fékk 4000 evrur í verðlaunafé fyrir að verða númer sex í kjörinu en það gera um 615 þúsund íslenskar krónur.

Filip Jicha og Alfreð Gíslason.Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Filip Jicha var algjör lykilmaður hjá Kiel sem vann bæði þýsku deildina og Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. Hann var valinn leikmaður ársins í Þýskalandi og varð markakóngur Meistaradeildarinnar.

Jicha var langmarkahæsti leikmaðurinn á EM í Austurríki en hann skoraði 53 mörk í 6 leikjum (8,8 í leik) og hjálpaði tékkneska landsliðinu að ná 8. sæti á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×