Viðskipti innlent

Upplýsingar veittar um Landsvirkjun

Trausti fannar valsson
Trausti fannar valsson

Lagt verður til við forsætisráðherra fyrir lok næsta mánaðar að opinber fyrirtæki svo sem Landsvirkjun, RÚV og Orkuveita Reykjavíkur verði sett undir upplýsingalög. Þannig hefði almenningur og fjölmiðlar betri aðgang að gögnum þessara stofnana.

Starfshópur um endurskoðun á upplýsingalögum, sem forsætisráðherra skipaði síðasta sumar, mun leggja þetta til en formaður hennar, Trausti Fannar Valsson, segir að heildstæð drög að nýjum lögum liggi þegar fyrir.

„Tillagan gengur út á að lögin nái til einkaréttarlegra fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Einnig er skoðað hvort þau geti náð til fyrirtækja sem eru að hluta í einkaeigu," segir Trausti Fannar.

Einnig verða lagðar til breytingar til að gera fólki auðveldara með að nálgast opinberar upplýsingar yfirleitt, og skoðað hvaða gögn megi opinbera sjálfkrafa, til dæmis á Netinu.

„Verði þetta að lögum víkkar það gildissvið laganna til muna," segir Trausti.

Starfshópurinn mun hafa samráð við stjórnsýsluna og fulltrúa fjölmiðla næstu vikur um praktísk atriði svo sem kostnað af breytingunum og hvernig þær geti skarast á við friðhelgi einkalífs, viðskiptahagsmuni og öryggi ríkisins.- kóþ








Fleiri fréttir

Sjá meira


×