Viðskipti innlent

Erlendum fjárfestum líður betur með krónueignir

Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa segir að þróun gengis krónunnar í síðustu viku bendi til þess að erlendum fjárfestum líði betur með krónueignir sínar.

Krónan heldur áfram að styrkjast þótt hægt fari. Það gerðist tvennt í vikunni sem hefði getað lækkað gengi krónunnar. Annars vegar voru stýrivextir lækkaðir um 50 punkta. Hins vegar var lokagjalddagi ríkisbréfaflokks sem var að mestu í eigu erlendra fjárfesta.

Eins og þekkt er þá geta erlendir aðilar valið á milli þess taka vaxtatekjur úr landi eða endurfjárfesta fyrir þær í krónum. Vaxtatekjur vegna þessa flokks voru nálægt 6 milljörðum og þar af áttu erlendir aðilar um 5 milljarða.

Þrátt fyrir þetta þá hreyfðist krónan nánast ekkert í vikunni. Þetta bendir annars vegar til þess að gjaldeyrishöftin haldi mjög vel og hins vegar til þess að erlendum fjárfestum líði betur með eignir í krónum en áður var talið.

Þeir virðast ætla að nýta háa íslenska vexti enn um sinn og treysta á að gjaldeyrishöftin verði rýmkuð innan ekki svo langs tíma þ.a. þeir geti farið úr krónunni þegar vaxtastigið verður ekki lengur áhættunnar virði, að því er segir í Markaðsfréttunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×