Viðskipti innlent

Tap Skipta nam 10 milljörðum króna

Hagnaður Skipta, móðurfélags Símans, á árinu 2009 fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 8,7 milljörðum króna. Sala jókst um 2% frá fyrra ári, nam 39,7 milljörðum króna samanborið við 39 milljarða árið áður, að fram í kemur í tilkynningu fyrir fyrirtækinu.

Þar segir að afskriftir félagsins námu 11.578 m.kr. á árinu samanborið við 6.354 m.kr. árið áður. Munurinn skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna. Tap samstæðunnar eftir skatta nam 10.205 m.kr. samanborið við 6.424 m.kr. tap á árinu 2008. Tapið nú skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á árinu og virðisrýrnun óefnislegra eigna sem nam um 7,3 milljörðum króna.

„Árið 2009 einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi félagsins. Afkoman af reglulegri starfsemi félagsins á árinu er góð miðað við aðstæður, handbært fé frá rekstrinum er áfram mjög sterkt og við erum stolt af því að skila tæpum 9 milljörðum króna í EBITDA. Dótturfélög samstæðunnar hafa náð að laga sig að breyttu rekstrarumhverfi og minnkandi eftirspurn og dregið hefur verið úr kostnaði," er haft eftir Brynjólfi Bjarnasyni, forstjóra Skipta hf. í tilkynningunni.

Brynjólfur segir að tekjuaukningin milli ára skýrist af aukningu erlendra tekna sem nú séu um 37% af heildartekjum og hafi aldrei verið hærri. „Gengi íslensku krónunnar veiktist enn á árinu og skýrir að hluta tap félagsins. Þá eru áætlanir okkar fyrir næstu ár varkárar, sem hefur í för með sér virðisrýrnun óefnislegra eigna sem skýrir stærstan hluta taps ársins. Við gerum ráð fyrir að aðstæður verði áfram erfiðar og teljum að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til geri Skipti vel í stakk búin til að takast á við þær aðstæður," segir Brynjólfur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×