Viðskipti innlent

Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fer fjölgandi

Nokkuð fleiri kaupsamningum um íbúðarhúsnæði hefur verið þinglýst það sem af er þessu ári en á sama tímabili í fyrra. Þannig hafa að meðaltali verið gerðir um 44 samningar á viku hverri frá áramótum en á sama tíma í fyrra voru gerðir um 32 samningar og jafngildir þetta aukningu upp á ríflega þriðjung.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir að þó séu umsvif á íbúðamarkaði enn afar lítil en samtals voru gerðir 51 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á tímabilinu 12.-18. mars. Líkt og áður voru mun minni hreyfingar með sérbýli á íbúðamarkaði en eignir í fjölbýli.

Þannig voru 11 samningum þinglýst um sérbýli í vikunni á móti 36 samningum um eignir í fjölbýli en jafnframt voru 4 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði gerðir á sama tíma.

Heildarvelta á þessu vikutímabili nam 1.353 milljónum kr. og meðalupphæð á hvern samning 26,5 milljónir kr. Kemur þetta fram í gögnum sem Fasteignaskrá Íslands birti í lok síðustu viku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×