Heildarviðskipti með skuldabréf í Kauphöllinni námu 328 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 14,9 milljarða kr. veltu á dag samanborið við 11,8 milljarða kr. veltu á dag í október mánuði. Er þetta næst veltumesti mánuðurinn á árinu.
Þetta kemur fram í yfirliti um viðskiptin í Kauphöllinni í nóvember. Þar segir að alls námu viðskipti með ríkisbréf 180 milljörðum kr. en viðskipti með íbúðarbréf námu 120 milljörðum kr.
Heildarviðskipti með hlutabréf í nóvembermánuði námu 1.698 milljónum kr. eða 77 milljónum á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í októbermánuði 2.775 milljónum kr. eða 132 milljónum á dag.
Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 2% milli mánaða og stendur nú í 930 stigum. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala iðnaðar (IX20PI) mest eða 2,2%.
Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina 45,7% (33,6% á árinu), Íslandsbanki með 17,4% (12,9% á árinu) og Landsbankinn með 9,9% (9,5% á árinu).
Í skuldabréfaviðskiptum í nóvembermánuði var H.F. Verðbréf með mestu hlutdeildina 22,7% (5% á árinu), Íslandsbanki með 22% (22,3% á árinu) og MP Banki með 21,1% (28,9% á árinu).