Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hækkar sjö mánuði í röð

Raungengi íslensku krónunnar hækkaði sjötta mánuðinn í röð í maí síðastliðnum á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Hækkunin að þessu sinni nam 3,8% frá fyrri mánuði en raungengið hefur ekki verið hærra síðan í mars á síðasta ári.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi hækkun sé að mestu tilkomin vegna hækkunar á nafngengi krónunnar um 3,5% á milli apríl og maí miðað við vísitölu meðalgengis.

Verðlag hér á landi hækkaði um 0,4% á sama tíma miðað við vísitölu neysluverðs sem er lítillega umfram verðlagshækkanir í helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabanki Íslands birti síðastliðinn föstudag.

Nú hefur raungengið hækkað um tæp 11% frá því það náði lágmarki sínu í ágúst á síðasta ári. Engu að síður er það enn lágt í sögulegu samhengi og er í raun tæpum fjórðungi undir meðaltali síðastliðnu tveggja áratuga.

Seðlabanki Íslands reiknar ekki með mikilli hækkun raungengisins í ár í nýjustu spá sinni, sem kom út í byrjun síðasta mánaðar, og telur jafnframt líklegt að það muni haldast lágt á næstu árum vegna mikillar skuldsetningar þjóðarbúsins í erlendri mynt og hárrar áhættuþóknunar á íslenskar fjáreignir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×