Viðskipti innlent

Samþykkir kröfu fyrrverandi fjármálastjóra Straums

Krafa fyrrverandi fjármálastjóra Straums Burðaráss upp á 179.292 pund, 34 milljónir króna, var í Héraðsdómi Reykjavíkur samþykkt sem forgangskrafa í þrotabú bankans. Hann féll frá tveggja milljón evra kröfu.

Þrotabú Straums skal greiða fjármálastjóranum fyrrverandi 600 þúsund krónur í málskostnað.

Stephen Andrew Jack var ráðinn til starfa hjá Straumi þann 19. október 2007.

Í ráðningarsamningi var meðal annars kveðið á um eingreiðslu kaupauka við undirritun samningsins og um mögulega greiðslu árlegs kaupauka.

Þá segir í ráðningarsamningi að verði um að ræða breytt eignarhald eða breytingu á hlutverki félagsins innan tveggja ára frá upphafi ráðningar geti Jack innan 30 daga rift samningnum og eigi hann þá rétt á greiðslu upp á tvær milljónir evra, samkvæmt dómnum.

Fjármálaeftirlitið tók Straum yfir í mars 2009 og í kjölfarið var honum sagt upp störfum og vísaði til þess ákvæðis í ráðningarsamningi aðila um heimild hans til uppsagnar vegna breytts eignarhalds hjá varnaraðila í kjölfar skipunar skilanefndar.

Þá vísaði Jack enn fremur til ákvæðis ráðningarsamnings um skyldu varnaraðila til greiðslu að fjárhæð tveggja milljón evra innan 30 daga. Í kjölfar þessarar uppsagnar gerðu aðilar svo með sér samkomulag 30. apríl 2009 sem aðstoðarmaður varnaraðila í greiðslustöðvun samþykkti.

Þar sömdu aðilar um að sóknaraðili héldi áfram störfum hjá varnaraðila til 31. maí 2009 og að réttur hans til kaupaukagreiðslu samkvæmt grein 4.3 í ráðningarsamningi stæði óhögguð en samhliða féll sóknaraðili frá kröfu um eingreiðslu upp á tvær milljónir evra með því skilyrði að samningurinn yrði virtur og að umdeild kaupaukagreiðsla yrði innt af hendi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×