Viðskipti innlent

Björgólfsfeðgar segjast hafa greitt lán sín að fullu árið 2005 og tekið ný lán

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lán sem Samson fékk frá Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupa á Landsbanka Íslands hf. var greitt að fullu ásamt áföllnum vöxtum á gjalddaga í apríl árið 2005 eða fyrir nærri 5 árum, segja Björgólfsfeðgar í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér nú undir kvöld.

Feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson segja í yfirlýsingunni að viðskipti Samsonar og Búnaðarbanka Íslands hafi hafist í apríl 2003 með lánssamningi að upphæð 48,3 milljónir bandaríkjadala. Þá hafi eigendur félagsins átt áralöng og farsæl viðskipti við bankann.

Þeir segja að tryggingar hafi verið veittar með veði í hlutabréfum Samsonar í Landsbanka Íslands hf. að markaðsverðmæti sem hafi numið tvöfaldri lánsfjárhæðinni. Þá segja feðgarnir að þvert á yfirlýsingar fyrrum bankastjóra Búnaðarbankans þá hafi engar sjálfskuldarábyrgðir verið gefnar vegna þessa láns.



Áttu frekari viðskipti við Kaupþing


Þá segja þeir feðgar að Samson hafi átt í frekari lánaviðskiptum við Kaupþing eftir sameiningu þess og Búnaðarbankans vegna ýmissa annarra fjárfestinga. Tvö lán hafi verið tekin árin 2004 og 2005 sem voru að fullu greidd fyrir mitt ár 2007.

Í desember 2005 hafi Samson tekið lán að fjárhæð 3,8 milljarðar króna. Tryggingar hafi verið teknar í hlutabréfum félagsins auk sjálfskuldarábyrgðar. Hluti fjárhæðarinnar hafi verið greiddur á gjalddaga í desember 2007 og þá verið gerður nýr lánasamningur um eftirstöðvar með hærri vöxtum. Áfram stóðu veðbönd á hlutabréfum félagsins og sjálfskuldarábyrgð. Gjalddagi þessa nýja láns var 10.desember 2008 en áður en sá dagur rann upp, eða í október sama ár, hafði ríkið yfirtekið hlut Samsonar í Landsbankanum sem var helsta eign félagsins og Samson hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Björgólfsfeðgar segja að það sé af þessu seinni tíma láni sem Kaupþing, - nú Arion banki, hafi krafið ábyrgðaraðila um greiðslur og sé það alveg óskylt kaupum á hlutabréfum Landsbankanum fyrir sjö árum. Viðræður standa yfir um uppgjör þeirrar kröfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×