Viðskipti innlent

Velheppnað útboð hjá LSS

Ágætis undirtektir voru við útboð Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) á skuldabréfaflokknum LSS150224 sem haldið var síðastliðinn föstudag. Alls bárust tilboð að nafnvirði 2.815 milljónum kr. í flokkinn á ávöxtunarkröfu sem var á bilinu 4,50%-4,76%.

Greining Íslandsbanka fjallar um útboðið í Morgunkorni sínu. Þar segir að sjóðurinn ákvað að taka tilboðum að nafnvirði 735 milljónir kr. á ávöxtunarkröfunni 4,55% sem er talsvert hærri fjárhæð en sjóðurinn hafði upphaflega lagt upp með að selja bréf fyrir, þ.e. 500 milljónir kr. að nafnvirði. Þetta kom m.a. fram í tilkynningu frá LSS sem birt var á heimasíðu sjóðsins og í Kauphöllinni nú í morgun.

Niðurstöðukrafan í útboðinu nú er nokkuð lægri en í útboði LSS sem fór fram í lok mars þegar hún var 4,80%, og eru þau kjör sem sjóðurinn fékk með þeim hagstæðustu sem honum hafa staðið til boða undanfarið ár.

Jafnframt var ávöxtunarkrafa tekinna tilboða í útboðinu nú 86 punktum yfir dagslokakröfu HFF síðastliðinn föstudag sem er öllu minni munur á kröfu flokkanna en verið hefur mest allt árið. Eftir útboðið er heildarstærð LSS24-flokksins orðin rúmlega 18,6 milljarðar kr. en útgáfa bréfa í þeim flokki er helsta fjármögnunarleið LSS til lánveitinga fyrir sveitarfélög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×