Viðskipti innlent

Þarf að ákveða framtíð Byggðarstofnunar

Ríkisendurskoðun.
Ríkisendurskoðun.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin telur að samvinna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Byggðastofnunar og byggða-áætlunar, sé ónóg og verkaskipting milli þeirra óljós. Þá telur Ríkisendurskoðun þarft að ákveða framtíð Byggðarstofnunnar, jafnvel dreifa verkefnum hennar annað.

Einnig torveldi ófullnægjandi skráning fjárhagsupplýsinga yfirsýn um fjárveitingar á þessu sviði og mat á árangri. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að endurskoða kerfið frá grunni og einfalda það. Þá þarf ráðuneytið að efla eftirlit sitt með aðilum innan þess og greina betur en hingað til kostnað, ávinning og árangur verkefna.

Árlega ver ríkið umtalsverðu fé til að styðja við þróun atvinnulífs og byggðar í landinu. Rúmur milljarður króna rennur til stofnana og verkefna á vegum iðnaðarráðuneytisins: Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Byggðastofnunar og byggða-áætlunar.

Byggðaáætlun á að veita yfirlit um áherslur stjórnvalda og forgangsröðun aðgerða á sviði byggðaþróunar. Ríkisendurskoðun telur að áætlunin hafi ekki reynst það stjórntæki sem henni er ætlað að vera þar sem í hana vanti áætlun um kostnað, mælanleg markmið og mælikvarða á árangur. Stofnunin leggur til að stefnumótun á sviði atvinnu- og byggðaþróunar verði endurskoðuð til að bæta úr þessum ágöllum. Að hennar mati eru áform forsætisráðuneytisins um svokallaða 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland jákvætt skref í þessa átt.

Í skýrslunni kemur fram að á síðustu árum hafi iðnaðarráðuneytið eflt Nýsköpunarmiðstöð en dregið úr vægi Byggðastofnunar. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að ákveða framtíðarhlutverk Byggðastofnunar á þessu sviði. Meðal annars þurfi að taka afstöðu til þess hvort flytja eigi hluta af verkefnum hennar til Nýsköpunarmiðstöðvar og Hagstofu Íslands.

Fleiri ráðuneyti en iðnaðarráðuneytið styðja við atvinnu- og byggðaþróun, m.a. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Að mati Ríkisendurskoðunar skapa áform um stofnun atvinnuvegaráðuneytis tækifæri til að efla stuðning ríkisins við atvinnu- og byggðaþróun. Skýr ábyrgð eins ráðuneytis á málaflokknum muni stuðla að aukinni samhæfingu og betri nýtingu fjármuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×