Viðskipti innlent

Strauss-Kahn segir að endurskoðun AGS sé í biðstöðu

Dominique Strauss-Kahn forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) segir að..."ef margar þjóðir í alþjóðasamfélaginu telji að við verðum að bíða með endurskoðun okkar á áætluninni fyrir Ísland munum við gera það."

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Dominique Strauss-Kahn hélt í Washington fyrr í dag. Hann segir að frá upphafi hafi AGS hjálpað Íslandi að takast á við erfiða kreppu. Þetta hafi tekist vonum framar að hans mati.

Strauss-Kahn segir að hann skilji reiði almennings á Íslandi vegna afleiðinga af bankahruni landsins og að þjóðin standi uppi með miklar skuldir vegna bankanna. Hann segir að lausn Icesavedeilunar sé ekki skilyrði fyrir áframhaldandi aðstoð AGS og sjóðurinn verði stjórnvöldum áfram innan handar.

Strauss-Kahn segir að Íslendingar verði að átta sig á því að AGS er stjórnað af alþjóðasamfélaginu og ef aðilar innan þess vilji setja endurskoðun sjóðsins á Íslandi í biðstöðu verði sjóðurinn að taka tillit til þess. AGS sé hinsvegar ekki skattheimtumenn fyrir einn eða neinn.

„Við þurfum á aðstoð alþjóðasamfélagsins að halda og það þurfa Íslendingar einnig," segir Strauss-Kahn sem bætir því við að Íslendingar verði að skilja að alþjóðasamfélagið geri kröfu um að þeir standi við skuldbindingar sínar, einnig þær sem fjármálageiri landsins hefur stofnað til.

Í byrjun fundarins notaði Strauss-Kahn tækifærið til að senda fórnarlömbum jarðskjálftans á Haití samúðarkveðjur sínar. Hann sagði jafnframt að sjóðirinn myndi mjög fljótlega senda 100 milljónir dollara til Haití og frekari aðstoð væri til umræðu.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×