Viðskipti innlent

Greining MP Banka spáir 8,4% verðbólgu

Enn virðist verðlag vera hækkandi þótt dregið hafi úr mánaðartaktinum. Greining MP Banka gerir því ráð fyrir um 0,4% hækkun verðlags nú í apríl og ef það gengur eftir verður ársverðbólga 8,4% en hún mældist 8,5% í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í Markaðsvísi greiningar MP Banka. Þar segir að þrátt fyrir hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu í mánuðinum má búast við áframhaldandi lækkun fasteignaliðarins í vísitölu neysluverðs en hann ræðst meðal annars af þróun fasteignaverðs og vaxta á íbúðalánum undanfarna mánuði.

„Styrking krónunnar í mánuðinum leiðir einnig til lækkunar innkaupsverðs og kann það að leiða til einhverrar lækkunar innfluttra vara. Við gerum ráð fyrir að þessir tveir þættir valdi því að vísitalan hækki 0,1% minna enn annars. Erfitt er að meta hve sterk þessi áhrif eru og hugsanlega vega þau enn þyngra á móti öðrum hækkunum," segir í Markaðsvísinum.

„Hækkun sem varð á verðskrám nokkurra bílaumboða í síðasta mánuði hafði ekki áhrif á mælingu verðlags í mars. Ekki er um slíkar hækkanir að ræða nú en hugsanlega koma þær fram með töf þegar viðskipti eiga sér stað. Það gæti valdið meiri hækkun vísitölunnar en hér er spáð.

Sveiflur í mánaðarbreytingum vísitölunnar hafa aukist á síðustu tveimur árum á sama tíma og verðbólga hefur aukist. Nú virðist heldur vera að draga úr verðbólgutaktinum, í bili að minnsta kosti, enda hefur dregið verulega úr innlendum eftirspurnarþrýstingi. Að öðru óbreyttu má búast við að verðbólga haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum. Verulegar launahækkanir, frekari veiking krónunnar, og minnkandi samkeppni eru allt áhættuþættir sem gætu unnið gegn þeirri þróun."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×