Viðskipti innlent

Um 2.200 fyrirtæki í þrot á síðasta ári

Þrot Þakka má aðgerðum bankanna á síðasta ári fyrir að færri fyrirtæki fóru í þrot en áætlað var segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.
Þrot Þakka má aðgerðum bankanna á síðasta ári fyrir að færri fyrirtæki fóru í þrot en áætlað var segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.
Spá fyrirtækisins Creditinfo Íslands um að ríflega 3.500 fyrirtæki myndu fara í þrot á árinu 2009 gekk ekki eftir, en greiðsluþrot fyrirtækja á árinu voru alls um 2.200 talsins.

Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, segir að í forsendum spárinnar, sem gerð var í upphafi síðasta árs, hafi verið tekið fram að yrði ekkert að gert stefndi í þennan mikla fjölda greiðsluþrota.

Raunin hafi hins vegar verið sú að bankarnir hafi gripið til aðgerða, og áhrifa þeirra hafi tekið að gæta upp úr miðju ári. Það hafi leitt til þess að greiðsluþrotin hafi orðið færri en spá fyrirtækisins hafi gert ráð fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo komust um 2.171 fyrirtæki í greiðsluþrot á árinu 2009. Með því er átt við að fyrirtækin voru til gjaldþrotaskipta eða gert var árangurslaust fjárnám. Ríflega helmingur þeirra störfuðu í byggingastarfsemi, verslun og þjónustu, eða í fasteignaviðskiptum. Alls urðu 823 fyrirtæki gjaldþrota fyrstu ellefu mánuði ársins í fyrra.

Rakel segir að hefði niðurstaðan þrátt fyrir aðgerðir bankanna verið að 3.500 fyrirtæki hefðu farið í þrot hefði spáin annaðhvort verið of varfærin, eða aðgerðir bankanna ekki árangursríkar.

„Við vorum meðvituð um það að við vorum að kalla á viðbrögð við þeirri stöðu sem upp var komin, og þau viðbrögð komu að einhverju leyti," segir Rakel. Ekki sé þó enn komið í ljós hvort fyrirtækjunum hafi verið bjargað í raun, eða hvort þeim hafi verið komið í tímabundið skjól með aðgerðum bankanna.

Í fyrra voru stofnuð 2.665 fyrirtæki samkvæmt Hlutafélagaskrá, flest í verslun og þjónustu. Til viðbótar voru stofnuð 145 sameigna- og samlagsfélög, þar af um 36 í desember. Alls hafa 30 slík fyrirtæki verið skráð í Fyrirtækjaskrá í janúar, samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×