Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Icesave þarf ekki að hindra stýrivaxtalækkun

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að töfin á Icesave málinu þurfi ekki að koma í veg fyrir stýrivaxtalækkun á fundi peningastefnunefndar í lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram í frétt á Bloomberg um málið.

„Það er svigrúm til staðar til að lækka vexti þar sem verðbólgan fer lækkandi," segir Már Guðmundsson sem staddur er í Basel í Sviss. „Að sjálfsögðu þýðir (Icesave innsk. blm)deilan að svigrúmið er minna en ella en það er samt til staðar."

Fram kemur í máli seðlabankastjóra að peningastefnan sé ekki ákveðin út frá þeim erlendu deilum sem Ísland gæti átt aðild að. Peningastefnan byggi á þrón efnahagsmála, þróun á gengi krónunnar, verðbólguþróun og því hve slakinn er mikill í hagkerfinu.

Seðlabankastjóri segir síðan að ákvörðun forseta Íslands um að beina Icesavemálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu þýði að Ísland gæti horft fram á óvissutíma í náinni framtíð fari svo að Icesave samkomulaginu verði hafnað í atkvæðagreiðslunni.

Ennfremur kemur fram í máli seðlabankastjóra að afnám gjaldeyrishaftanna muni dragast verulega ef áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands haldi ekki áfram eins og um hefur samist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×