Viðskipti innlent

Grunur um að tekjum hafi verið skotið undan

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Eignir verða kyrrfsettar hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jóni Sigurðssyni. Mynd/ Arnþór.
Eignir verða kyrrfsettar hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jóni Sigurðssyni. Mynd/ Arnþór.
Skattyfirvöld munu fara fram á að eignir Skarphéðins Berg Steinarssonar, Jóns Sigurðssonar, Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar verði kyrrsettar. Þeir voru allir í forsvari fyrir FL Group á árunum 2006 og 2007 en grunur leikur á að tekjum hafi verið skotið undan í rekstri félagsins.

Hár rekstrarkostnaður FL Group var harðlega gagnrýndur, m.a. af hluthöfum. Árin 2006 og 7 nam hann samtals 9 milljörðum króna. Árið 2007 var stærsti einstaki kostnaðarliðurinn undir öðrum kostnaði sem hljóðaði upp á tæpan 3,5 milljarð króna eða 45 milljónir á hvern starfsmann. Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur m.a. grunur á að hlunnindi starfsmanna hafi verið færð inn sem rekstrarkostnaður og því hafi starfsmennirnir ekki greitt skatt af hlunnindunum. Dæmi um slíkan kostnað eru t.a.m. ferðir á einkaþotum og notkun á eðalvagnaþjónustu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu munu skattyfirvöld krefjast þess að eignir fyrrverandi stjórnarformannanna Jóns Ásgeirs og Skarphéðins Berg verði kyrrsettar. Auk þess verður farið fram á að eignir forstjóranna á þessu tveggja ára tímabili, þeirra Hannesar og Jóns, verði kyrrsettar. Nema skattkröfurnar samtals hundruðum milljóna króna.

Ef eignir þeirra hrökkva ekki upp í væntanlega skattkröfu þá er hægt að vísa málinu til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra sem rannsakar þá hvort tilefni sé til ákæru. Sektir í slíkum málum geta numið allt að tífalldri þeirri upphæð sem var skotið undan skatti. Venjan er þó að sektin nemi tvöfaldri upphæðinni.

Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til að krefjast kyrrsetningar á eignum vegna væntanlegrar sektarkröfu. Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar eru ekki undanskildir þar þó þeir beri ekki ábyrgð á skattkröfunni sjálfri heldur sektinni sem á rætur að rekja til undanskota sem áttu sér stað á þeim tíma sem þeir stýrðu félaginu. Þá er lítið skjól fólgið í því að hafa fært eignir yfir á maka sinn þar sem innheimtumaður ríkissjóðs getur gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja.

Stefán Skjaldarson vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að embættið er með mörg mál er varða kyrrsetningar á sinni könnu um þessar mundir.

Jón Ásgeir Jóhannesson sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði rætt við skattrannsóknarstjóra í dag og að upphæðin sem væri til rannsóknar í hans tilfelli væri um sjö milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×