Viðskipti innlent

Már: Íslensk stjórnvöld gerðu rétt í að ábyrgjast ekki bankaskuldir

Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá íslenskum stjórnvöldum haustið 2008 að ábyrgjast ekki skuldir bankanna gagnvart kröfuhöfum þegar bankarnir féllu. Raunar gátu íslensk stjórnvöld ekki stutt við bakið á kröfuhöfunum sökum þess hve miklar skuldir bankanna voru.

Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttaveitunnar við seðlasbankastjóra. Í því segir Már að eigendur skuldabréfa eigi ekki að treysta á að ríkisstjórnir grípi inn í og bjargi þeim.

Bloomberg rifjar upp að kröfuhafar Kaupþings, Landsbankans og Glitnis séu enn að reyna að fá eitthvað af 85 milljarða dollara kröfu sínum á hendur þessara banka. Ísland hafi ákveðið að láta þennan kostnað lenda á kröfuhöfunum á meðan Írland hafi farið þá leið að tryggja eigendur krafna á hendur írsku bönkunum og sé sú ákvörðun hluti af 85 milljarða evra neyðaraðstoð til landsins.

Már segir að hann telji að Írar séu nú að viðurkenna að þeir hafi verið of fljótir á sér að tryggja allt hjá bönkum sínum. „Nú er ljóst að þetta er mikil byrði því að eignir þessara banka eru mun rýrari og verri en talið var," segir Már.

Hvað Ísland varðar segir Már: „Ég hef ekki gert upp hug minn um hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun fyrir alla aðila, en Ísland átti ekki aðra möguleika. Það verður mjög athyglisvert að meta eftir nokkur ár um hvort þetta hafi kannski verið rétta ákvörðunin."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×